Ólafur Bjarnason SH 137. 50 ára.


Núna árið 2023 þá eru ekki margir bátar gerðir út sem hafa haldið sama nafni sínu í 50 ár eða svon. Í raun má segja að þeir séu aðeins tveir. Sigurður Ólafsson SF og Ólafur Bjarnason SH.


Ólafur Bjarnason SH var smíðaður árið 1973 og kom til Ólafsvíkur snemma í september árið 1973, hóf róðra um miðjan þann mánuð og þá á trolli.


Eigendur af Ólafi Bjarnasyni SH var fyrirtækið Valafell hf í Ólafsvík og fyrirtækið á enn þann dag bátinn.

 Ólafur Bjarnason SH hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum þessi 50 ár. t.d ný brú, skutnum slegið út að aftan, og lengdur úr 27.63 metrum í 28.8 sem gert var árið 1997. og byggt yfir hann


Ólafur Bjarnason SH var smíðaður á Akranesi hjá fyrirtækinu Þorgeiri og Ellert hf og þó svo að báturinn hafi tekið smá breytingum

 síðan hann var smíðaður þá er ennþá vélin í honum sem var í honum þegar hann kom fyrst á flot. Í bátnum er 500 hestafla Alpha vél.


Söfnun

Ég hef verið undanfarin um 30 ár eða svo að safna saman aflatölum um alla báta á íslandi og fékk ég það

 verkefni að safna saman aflatölum um bátinn alveg frá upphafi og til 31.ágúst árið 2023. hef ég tekið að mér nokkur svona verkefni í gegnum árin.

 t.d Gunnar Hámundarsson GK, skipstjórann Jón Magnússon frá Patreksfirði, Hamar SH, skipstjórann Grétar Þorgeirsson sem var með Farsæl GK og nokkur önnur verkefni.


Tók það mig smá tíma að safna og reikna saman tölunum um Ólaf Bjarnason SH, og afhenti ég þau gögn í 20 blaðsíðna riti til eigenda bátsins núna fyrir nokkrum dögum síðan.

Hérna er smá um bátinn og aflann sem hann hefur veitt


Afli

Útgerðarmynstur bátsins á þessari öld hefur að mestu verið það sama, net og dragnót,


 en frá 1973 og til 2000, þá var báturinn t.d á línu, netum, dragnót, rækju, trolli og síld á reknetum.


Heildaraflinn hjá bátnum er rúm 52.000 tonn í rúmlega 6600 róðrum.


Ólafsvík hefur verið aðalhöfn bátsins öll þessi 50 ár og einungis fór báturinn á smá flakk þegar hann


 var á síldveiðunum á reknetum, en bolfiskafli bátsins er að svo til öllu leyti landaður í Ólafsvík.


Báturinn hefur t.d aldrei komið til Suðurnesja sem vekur nokkra athygli, og hefur aldrei komið á neinar


 hafnir á Norðurlandinu nema Siglufjörð þegar að báturinn var á síld..


Aflafrettir óska útgerð og áhöfn bátsins til hamingju með 50 árin á Ólafi Bjarnasyni SH.



Ólafur Bjarnason SH